30.4.04

Junko Mizuno

Verð nú að segja að mér finnast þetta vera svolítið flottar myndir , þótt sumar séu frekar ógeðfelldar, svona.

Ó, þetta erfiða líf!

Mig dreymdi í nótt að ég væri að versla föt. Ég keypti og keypti, yndislegur draumur. Svo vaknaði ég við kaldan veruleikann. Engin föt, nema bara í hrúgu á gólfinu í svefnherberginu og í óhreinatauskörfunni... Snökt :'-(

Því miður reyndi ég líka að halda mér í paradísinni aðeins of lengi, og svaf því yfir mig.

29.4.04

Ég er vísindamaður

Við erum búin að fá vilyrði fyrir því að greinin okkar Binna, Kjartans og Vöku birtist í Ársriti sálfræðinema sem kemur út bráðlega. Gerðum rannsókn á fyrirbæri sem kallast Fear-then-relief og komumst að því, eins og fyrri rannsóknir höfðu bent til, að það er auðveldara að tala um fyrir fólki eftir að það hefur upplifað létti eftir að hafa verið angistarfullt en ef því hefur ekki létt.

Strákar, næst þegar þið eruð að reyna að húkka ykkur gellu, hræðið bara úr henni líftóruna og segið svo "Allt í plati, rassagati, eigum við að koma heim til mín?"

Eitt búið, tvö eftir

Var að koma úr fyrsta prófinu mínu. Gekk bara svona ágætlega, held ég, en gæti farið á hvaða veg sem er, þar sem þetta var krossapróf á la Sigurður Grétars.

Nú er ég að reyna að mana mig upp í að fara að læra fyrir skynjunarsálfræði, sem er 3. maí. Það verður nú samt örugglega skemmtilegra heldur en að lesa blaður, en knappur tími þó.

En, svo ég vísi nú í Bogga, on with the butter...

28.4.04

Hestakór

Þið sem eruð að stressast fyrir próf getið örugglega bætt skapið með þessum hestakór .

Ég er annars orðin pínulítið stressuð, en það er bara eiginlega eins og að fá gamlan vin í heimsókn, frekar notalegt bara, og ekkert yfirþyrmandi ;-)

Ótillitssamt fólk

Oooh, ég var úti á sólpalli að hafa það gott, þegar það kemur ekki bara strollan af einhverjum ungmömmum. "Ó, ert þú hér!" segja þær þegar þær koma. "Já" segi ég "Ég er bara að læra undir próf" (*hint, hint*). "Já, híhí" skrækja þær og setjast síðan niður og byrja að kjafta allsvakalega, ekkert lágt. "Oh, hún Ágústa mín, hún er farin að velta sér. Hlakka svo til þegar hún fer að sitja skríða og svona, yap yap yap ble ble ble".

Ég fór bara inn :-( Ætla kannski að reyna að kíkja aftur eftir klukkutíma.

Sumarið er komið, svona á það að vera

Vaknaði eldsnemma á minn mælikvarða, eða klukkan 10, við sól og blíðu. Yndislegt. Ætla örugglega að kíkja út á sólpall á eftir að læra, það er ef ég fæ bókina sem ég ætlaði að lesa í dag...

Ef efni efnafræðingsins myndu haga sér eins og þátttakendur í sálfræðitilraunum...

...þyrfti að passa vel upp á að velja sameindir með tilviljun í úrtakið, svo hægt sé að alhæfa út frá niðurstöðunum.

...þyrfti að fá leyfi hjá efnunum sjálfum, forráðamönnum þeirra og tilkynna rannsóknina til efnaverndarnefndar.

...gætu efnin tekið upp á því að hegða sér allt öðruvísi en þau eru vön, bara af því að efnafræðingurinn fylgdist með þeim.

...mætti ekki gera skemmtilegustu tilraunirnar þar sem þær væru ekki siðferðislega réttar.

...myndu hvorki efnafræðingurinn né efnin sjálf mega vita hver væri tilgátan um hvernig efnin hegðuðu sér, annað gæti haft áhrif á niðurstöður.

27.4.04

Skroll-land

Við Björn erum að pæla í því að skella okkur til Hollands í sumar að kíkja á vini okkar Ragga og Ingibjörgu. Þau eru þar stödd til að læra að skrolla að hætti innfæddra.

Vorum annars að kíkja á flugfargjöld hjá þessum lággjaldaflugfélögum, og þvílíkt verð! Fram og tilbaka frá London til Amsterdam fyrir okkur bæði kostar okkur um 5500 kr! Þetta er náttúrulega bara rugl.

Oj oj oj!

Ojbara, ég er búin að borða svo mikið nammi í þessum prófum að ég bókstaflega finn fyrir fitunni safnast fyrir á lærunum á mér! Venjulega í svona prófum þá léttist ég, en ég held að það sé af því ég brenni meiru vegna stress. Verð að fara að verða stressaðri, ég veit ekki hvað er að mér...

26.4.04

Bara svona almennt kjaftæði...

Oooh, énenniggialæra! Þroskasálfræðibókin er eitthvað svo: "Unglingar fara að hafa áhuga á hinu kyninu" eða "Ef krakkar reyna að leggja eitthvað á minnið en gleyma því, þá eiga þeir oft erfitt með að rifja það upp síðar". Blebleble... :-( Æ, ég er bara þreytt á þessu...

Fór annars til Olgu og lærði með henni alla síðustu nótt. Ætti eiginlega að gleðjast yfir því að vera ekki að læra einhverja uberrafsegulmögnunarfræði, eða hvað það nú var sem hún var að reyna að lesa.

25.4.04

Furðulegur draumur

Skrýtið hvað mig dreymir um absúrd hluti. Dreymdi í nótt að ég hefði fengið far hjá Davíð Oddssyni upp á heiði í einhverja kirkju. Þar sá ég afa minn. Kirkjan var allt í einu ekki lengur kirkja heldur elliheimili, þar sem afi og amma bjuggu við illan leik. Afi sýndi mér vistarverur sínar. Hann bjó í svo litlu herbergi að ekki var einu sinni hægt að liggja þar endilangur og hann var búinn að veggfóðra nakta veggina með pappaspjöldum. Ég vorkenndi honum svo að ég ákvað að gera eitthvað í málunum. Og eins og alltaf í draumum er það ekki alltaf mjög rökrétt. Ég ákvað sem sagt, með hjálp Rósalindar vinkonu, að tæla einhvern grey strák, til þess að afi minn gæti skipt við hann um líkama og orðið ungur á ný. Aumingja strákurinn var alveg í rusli þegar hann frétti að nýja kærastan hans væri bara plat.

Svo var það eitthvað meira, þetta var bara svo absúrd að ég man ekki hvað það var.

Sálfræðimoli: Það hefur komið í ljós að fólk á auðveldast að rifja upp hluti þegar það er í sama hugar- og líkamsástandi og þegar það lagði þá á minnið. Ef ykkur dettur til dæmis í hug að fá ykkur neðan í því og fara svo að læra fyrir próf er því betra að taka prófið fullur en edrú (eða þunnur :-Þ). Einnig væri heppilegast að læra í sömu stofu og þið takið prófið í.

Talið er að þetta sé hvort tveggja vegna þess að maður "festir" minningarnar við ákveðnar minnisvísbendingar þegar maður leggur eitthvað á minnið. Ef minnisvísbendingarnar eru svo allt öðruvísi þegar maður ætlar að rifja upp gengur illa að "finna" minningarnar.

Sumir telja að þetta fyrirbæri geti einnig skýrt af hverju fólk á erfitt með að muna drauma sína. Það er einfaldlega í allt öðru heila- og hugarástandi í vöku, þegar rifja á upp, heldur en í svefni, þegar fólk leggur á minnið.

24.4.04

Fræðigreinafordómar

Skrýtið hvað fólki finnst merkilegt. Sálfræðingum finnst aðrar félagsvísindagreinar vera prump á meðan raunvísindafólki upp til hópa finnst sálfræði vera prump. Stærðfræðingar og verkfræðingar líta aftur niður á allar raunvísindagreinar þar sem ekki er notuð mikil stærðfræði. Læknum finnst síðan hjúkkur ekki eins merkilegar og þeir. Held líka að sálfræðingar líti niður á viðskiptafræðinema (allavega Andri ;-)). Veit ekki alveg með hugvísindin, en margir hrista bara hausinn yfir "lopapeysuhugsjónamönnunum".

Er þetta ekki annars rétt? Og af hverju er þetta svona? Réttmæt gagnrýni eða vankunnátta?

Fleiri...

[Ég ákvað að ritskoða þennan póst til að meiða engan að óþörfu]

Matthildur leiðinlega

Dem. Hún Matthildur sem gerði mér lífið leitt í fjórða bekk grunnskóla varð í 3. sæti í ungfrú Reykjavík. Er ekki enn búin að fyrirgefa henni. Ojæja, kannski er hún breytt og betri manneskja...

Batnandi mönnum er bezt að lifa.

P.S. Sáuð þið hvað ég hefði verið góð í stafsetningu fyrir Zetu-lögin?

23.4.04

Ekkert merkó

Ekkert sérstakt héðan að frétta. Er bara með haus- og magaverk að reyna að lesa um málþroska barna. Reyni reyndar allt hvað ég get til að lesa eitthvað annað en það sem ég á að lesa. Les til dæmis PHP-forritun á klósettinu! Var nú ekki gaman að fá að vita það?

22.4.04

Ís

Ístegundir sem ég held að sé markaður fyrir (en ég hef ekki enn séð í stóru dollunum):
-Mangóís
-Bláberjaís
-Aprikósuís

Ístegundir á mörkunum:
-Kanelís
-Rúsínuís
-Hlaupís

Way off:
-Spergilkálsís
-Barbecue-ís
-Lýsisís

Jón Torfi, Raggi, Sara, einhverjir fleiri?

Til hamingju með afmælið öllsömul og allir aðrir sem ég hef gleymt. Held a.m.k. að þið eigið afmæli um þessar mundir, annars bara segi ég gleðilegt sumar í staðinn. Geggjað veður líka. Fór í heilsubótargöngu á peysunni einni saman (út í sjoppu, svo þar fór heilbrigðið).

Nörd?

Vegna síðasta innleggs míns þá fór ég að velta fyrir mér merkingu orðsins NÖRD. Í fyrsta lagi er það ekki það sama og að vera LÚÐI, þar sem hægt er að vera skvísunörd eins og ég ;-) Lúðar eru aftur á móti frekar asnalegir, ekki satt? Lúðar eru líka svolítið clueless, því þeir fatta yfirleitt ekki asnalegheit sín. Að því leytinu til eru þeir dálítið líkir LJÓSKUM, en þær eru clueless en ekki asnalegar.

Ég held að það sem skilgreini nörda séu áhugamál þeirra. Þeir hafa yfirleitt einhver dálítið sérstök áhugamál, eða eyða einstaklega miklum tíma í einhver venjuleg áhugamál. Tölvunördar hafa til að mynda gríðarlegan áhuga á tölvum og sálfræðinördar hafa, skilst mér á Bogga, óeðlilega mikinn áhuga á sálfræði, og tala óspart um þá fræðigrein.

Reyndar ein pæling: Er Sigga þá áfengisnörd? ;-)

Allavega, skvísunördar eins og ég hlusta á N.E.R.D., mæli með nýjasta laginu þeirra...

21.4.04

Heiða skvís

Þessa lýsingu á mér setti Boggi við tengilinn inn á síðuna mína. Nokkuð skemmtileg.

Heiða skvís: Heiða er sálfræðinörd af lífi og sál. Hún er ein af fáum stúlkunum sem er stolt yfir því að vera nörd... sem er frábær... Ef þið lesið bloggið hennar verðiði án efa fróðari fyrir vikið :P

Prentari með heilasköddun?

Ég held að prentarinn minn sé kominn með Neglegt Syndrome. Hann prentar allt eðlilega út, nema sleppir alltaf nákvæmlega sömu línunni á blaðinu, alveg sama hvað ég fiffa allt til. Arrg! Ég prentaði út svona tíu eintök afa sama fokkings blaðinu áður en þetta kom rétt út...

Þar sem fæstir sem lesa þetta blogg (í raun eru það fæstir sem lesa þetta blogg) vita hvað Neglect Syndrome er þá verð ég líklega aðeins að úrskýra. Fólk með skemmdir á ákveðnum stað í heila fær oft einhvers konar athyglisbrest á allt sem er til vinstri við það, þótt t.a.m. sjón þeirra sé ósködduð. Maður með N. S. gleymir e.t.v. að klæða sig vinstra megin, borðar ekki það sem er vinstra megin á disknum hans, les ekki vinstri hluta samsettra orða (hestvagn verður vagn, samfélag verður félag) o.s.frv.

19.4.04

Jibbí, fékk Nýsköpunarsjóðsstyrk!

Þetta er nú skemmtilegt, nú get ég farið að vinna við mína fræðigrein í allt sumar ;-) Fyri þá sem vita ekki þá mun ég rannsaka sjónskynjun.

18.4.04

Flotta plaggatið mitt

Ég var rétt í þessu að klára BARBÍBLEIKASTA plaggat í heimi! Það EEEEER svo artý og kúl, að það er meira að segja skakkt, hehe. Veit samt ekki hvort Sigurður kennari sé sammála mér, barbíbleikur þykir e.t.v. ekkert mjög vísindalegur litur...

17.4.04

Djöfull er ég reið

Var að lesa bloggið hennar litlu frænku minnar, hennar Elísu, Hún er níu ára og býr í Noregi. Mikið hrikalega varð ég reið þegar ég las þessa lýsingu hennar. Hvernig dettur fullorðinni manneskju að koma svona fram við börn?!? Hún bara hlýtur að vera snarklikk!

Hér er lýsingin:
I dag var ég að leika við Karine,Matias,Julie og Elías.Sandra er ekki vinkona okkar.Og þegar við vorum að spurja hana afkverju hún hljóp í burtu þegar ég var að laba til henar.Og þá sækti hún mömmu sína og mamman kalaði okur skída börn og að við værum ógeðsleg og að við ætum að drulla okkur heim og hún hevur líka sakt viðmig að ég væri heimsk og heimsk í hausnum.Mamman henar er ekki góð :(.

Digital age

Ég er nokkra metra frá kærastanum mínum og ég er að tala við hann gegnum MSN, af því ég nenni ekki að öskra til hans, því hann er með heyrnartól á hausnum að tala við fólk úr öllum heimshlutum. Sick!

To a place far, far away...

Hmm... Eins og sést á því hvað ég er búin að skrifa oft á þetta blogg í dag á ég að vera að læra. Það er bara ekkert hægt að sitja fyrir framan tölvu með internettengingu og eiga stanslaust að vera að gera eithverja skýrslu upp á 15 blaðsíður!

Mig langar bara að klára þetta helvíti og fara svo til Langtiburtistan, þar sem engar tölvur eru til, bara sveitasæla... og skólabækurnar mínar sem ég ætti fyrir löngu að vera búin að lesa. Kannski fer ég bara ein upp á Högnó í staðinn. Mmmm... Æi nei, þar er enginn ísskápur. Dem! Æ, lifi hvort sem er bara á nammi.

16.4.04

Hvenær deyrð þú?

Þorirðu að athuga það? Tékkaðu þá á Death Meter

Ég er búin að fatta þetta, en þið?

Rakst á dálítið skemmtilega síðu um daginn sem við fyrstu sýn var mjög spooky. Fattaði síðan hvernig hún virkaði. Viljið þið spreyta ykkur í að finna þetta út? Farið á Mystical Ball ;-)

Ísak Birkir Sævarsson

Jæja, þá er það komið í ljós hvað litli pjakkur hennar Rósalindar heitir. Við Björn fórum til þeirra áðan. Hann Ísak Birkir svaf bara og svaf, er víst voða vær og góður, og Rósalind var eldhress, sem betur fer.

Ég er annars bara búin að vera að skrifa einhverjar skýrslur í dag, eins og vanalega, og bögga eins og einn kennara líka. Greyið Sigurður, hann er örugglega farinn að fela sig fyrir mér á göngunum, ég er alltaf að koma með einhverjar spurningar til hans, læt hann ekki í friði.

15.4.04

Sumarvinna: redduð

Sit hér sveitt að skrifa skýrslu um aldursskynjunarrannsóknina mína. Missti mig algjörlega og skrifaði 6 1/2 blaðsíðu bara um niðurstöðurnar. Sigurður bara verður að gefa mér gott fyrir þetta...

Annars er ég væntanlega í góðum málum með sumarvinnu. Það á að vísu eftir að koma í ljós hvort ég fái Nýsköpunarsjóðsstyrk, en ef ekki þá erFriðrik kennari búinn að bjóða mér vinnu á Félagsvísindastofnun við það að þýða eitthvert matskerfi ;-) Ég var búin að kvíða því að verða atvinnulaus í sumar, svo, jibbí!

Greinavandræði

OK, týpískt! Ég og samstarfskona mín erum nú búnar að eyða nokkrum dögum í að leita að almennilegri grein um það sem við erum að rannsaka fyrir þroskasálfræði. Við erum búnar að fara í gegnum hundruð útdrátta í öllum helstu gagnasöfnunum og á Þjóðarbókhlöðunni en ekkert hefur gengið. Og hvar haldiði að ég finni þessa blessuðu grein? Á GOOGLE! Urk purk, hefði getað setið heima hjá mér og flett upp greinum á almennum leitarsíðum í stað þessa vesens... En jey, búin að finna eitthvað nothæft!

12.4.04

Til hamingju Rósalind mamma!

Í dag eignaðist Rósalind, vinkona mín til fjöldamargra ára, lítinn labbakút og er því orðin mamma. Til hamingju!!! Ég hlakka til að kíkja á ykkur.

11.4.04

Gleðilega páska!

Gleðilega páska allihopa! Er núna uppi á Högnastöðum að hafa það gott (þótt ég sé að læra). Við fórum í pottinn, amma og afi komu í heimsókn og við átum öll á okkur gat. Höfðum páskalambið kl. 3, sem er frekar sérstakt.

Voða lítið að frétta annars nema að mér tókst að hella hálfum Cheerios-pakka yfir hausinn á mér, vaskinn, á gólfið og yfir restina af páskamatnum :-/

10.4.04

OMG - stutt í próf!

Úff, maður er ekki alveg að fatta hversu stutt er í prófin. Ég byrja m.a.s. í þessum mánuði! Og ekki má gleyma því að ég á eftir að skila af mér þremur rannsóknarskýrslum og einu veggspjaldi...

Fyrir utan að fá magasár vegna vinnuálags þá ætla ég að kíkja á Eirík lundverja og Marín heitkonu hans. Karlinn er að verða (eða orðinn?) 25 ára, svo þetta er hálfgert stórafmæli. TIL HAMINGJU Eriíkur! Sé ykkur á eftir. Svo förum við bara á Högnó til ma og pa. Mmmmmm... lambasteik...

8.4.04

Í sumar ætla ég að...

...lesa Da Vinci Code, Ilminn og Origin of species
...uppgötva fullt af nýrri tónlist
...læra php-forritun
...ákveða efni Ba-verkefnisins míns
...djamma hrikalega mikið
...blogga

7.4.04

Virkar lýðræði?

Var að pæla: Virkar lýðræði í raun og veru? Þegar taka á afstöðu til einhvers máls eru væntanlega til einhver "normal" viðhorf. Þá er ég ekki að meina eðlileg viðhorf, heldur viðhorf sem þorri manna hefur. Þegar kjósa á um mál sem byggjast á þessum viðhorfum vinnur það mál sem passar við normviðhorfið.

Gerum nú ráð fyrir að þeir sem hafi normviðhorf varðandi eitt málefni hafi normviðhorf gagnvart flestum öðrum málefnum (tek það fram að þetta er bara mín tilfinning fyrir hlutunum, þeir sem eru venjulegir á einu sviði eru yfirleitt venjulegir á öðrum sviðum). Alltaf þegar gengið er til lýðræðislegra kosninga vinnur normviðhorfið. Þeir sem hafa slík viðhorf hafa því hlutfallslega meira vægi í að hafa áhrif á samfélagið en þeir sem eru óvenjulegir. Af því fæstir eru sammála þeim fá þeir ALDREI að ráða neinu!

Bara pæling: Hvernig væri að búa til kerfi þar sem ríkjandi viðhorf fær að ráða úrslitum í réttu hlutfalli tilfella við þá einstaklinga sem hafa það viðhorf. Til að mynda, ef 30% fólks telur að frekar eigi að styrkja menntakerfið en heilbrigðiskerfið og 70% manna eru á öndverðum meiði, þá eigi að beina tíma og peningum til þessara kerfa í sammræmi við þessi hlutföll. Hvernig ætti svo að útfæra þetta skal ósagt látið...

Heiða mælir með...

...að fara snemma á djammið. Það gerðum við í gær. Byrjuðum kl. hálfsjö á því að fá okkur að borða á Victor (góður matur, mmm), fengum okkur nokkra bjóra og tókum svo bara síðasta strætó heim! Ekkert vesen.

6.4.04

Sjálfspyntingarhvöt

Oh, af hverju gerir maður þetta alltaf? Ég var búin að hugsa um náðuga daga á næstu önn þegar ég yrði nú laus úr stjórn Animu (þótt þetta hafi verið afskaplega skemmtilegt allt saman). Og hvað gerist þá? Jú, ég læt plata mig í það að bjóða mig fram sem nemendaráðgjafa! Og ég sem hélt að ég ætlaði að fara að sinna eigin námi en ekki annarra... Meiri vitleysan.

4.4.04

Valkvíði

Var að lesa svolítið áhugaverða grein eftir hana Birnu Önnu í Tímariti Morgunblaðsins í dag sem fjallar um valkvíða. Valkvíði er örugglega frekar nýtt vandamál þar sem samfélagið er sífellt að verða flóknara og fólki boðið upp á æ fleiri valkosti í námi, störfum, neysluvörum, miðlum og já bara öllu.

Ég kannast alveg einstaklega vel við svona valkvíða. Þegar ég fór í menntaskóla valdi ég náttúrufræðibraut, í raun aðeins til að fresta námsvali mínu, því af þeirri braut er hægt að komast í nánast hvaða grein sem er. Þegar ég þurfti að velja mér grein í Háskólanum fannst mér það HRÆÐILEGT, mér fannst ég vera að ákveða alla framtíð mína. Ég valdi sálfræði, en er ekki enn viss um það val, og er í raun á sama stað og ég var fyrir sex árum, þegar ég byrjaði á náttúrufræðibrautinni í MH.

Áhugaverðar sálfræðirannsóknir hafa sýnt að því fleiri valkosti sem fólk hefur, því ólíklegra er að það velji nokkurn þeirra. Til að mynda er ólíklegra að fólk kaupi sultu í matvöruverslun ef boðið er upp á 24 tegundir en ef boðið er upp á 8. Ég kannast líka afar vel við þetta. Ég hef tekið eftir þessu á útsölum. Eftir því sem fleiri föt fara á hagstætt verð því óákveðnari verð ég um hvað ég eigi að kaupa. Á endanum kaupi ég ekki neitt!!! Samkvæmt þessu ættu búðir að græða langmest á því að setja aðeins nokkrar vörur á lækkað verð. Ég vona samt að útsölurnar haldi áfram, það er svo gaman að skoða ;-)

Þynnkudagur

Í dag er þynnkudagur, jey! Byrjaði þó daginn á að fá mér hressandi göngutúr með Birni Leví þar sem við skildum bílinn eftir. Fórum síðan að fá okkur American Style, nammi og ís (þynnka er góð afsökun fyrir sukkmat).

Árshátíðin var afar vel heppnuð og ég fékk mikið hrós fyrir fötin mín. Ég dansaði nærstum af mér tærnar (ái, nýjir skór). Er enn aum. Er núna að reyna að læra, sem gengur ekkert sérlega vel, sé varla á bókina, ég er svo glaseygð 8-)

Á þriðjudag eru svo kosningar í Animu. Það lítur allt út fyrir að við fáum nýjan vefstjóra, jibbí! Hann kann meira að segja á tölvur. Ég var farin að fá martraðir um að ég þyrfti að eyða tíma mínum í að kenna einhverri tölvufatlaðri manneskju hvað væri nú netslóð, hvað væri tengill eða eitthvað...

Það er eiginlega búið að vera svo mikið að gera að ég hlakka nærstum því til að geta farið að slaka á við það að læra undir prófin.

3.4.04

Árshátíð

Árshátíð Animu er í kvöld. Nú þarf ég að fara að versla og koma mér í stuð. Sátum sveittar í gær að skreyta salinn. Allt reddaðist, þótt um tíma hefði litið út fyrir að við fengjum dúka sem litu út eins og gluggatjöldin hjá langömmu salareigandans!

2.4.04

Jess, geeeekt klár!

Það borgaði sig greinilega að eyða svona löngum tíma í þetta helvítis greindarpróf (var hluti af BA-rannsókninni), því ég fékk 55 atriði rétt af 60. Veit samt ekki hvað það er í IQ... Örugglega 230, hah!

1.4.04

Nú hef ég afrekað að...

...sofa nær ekkert í nótt
...borða nær ekkert í dag
...taka viðtöl við 25 krakka án þess að fara á klósettið
...leggja fyrir eitt stykki próf án þess að klúðra því hræðilega

Nokkuð gott, ha? Er líka úrvinda...