4.4.04

Valkvíði

Var að lesa svolítið áhugaverða grein eftir hana Birnu Önnu í Tímariti Morgunblaðsins í dag sem fjallar um valkvíða. Valkvíði er örugglega frekar nýtt vandamál þar sem samfélagið er sífellt að verða flóknara og fólki boðið upp á æ fleiri valkosti í námi, störfum, neysluvörum, miðlum og já bara öllu.

Ég kannast alveg einstaklega vel við svona valkvíða. Þegar ég fór í menntaskóla valdi ég náttúrufræðibraut, í raun aðeins til að fresta námsvali mínu, því af þeirri braut er hægt að komast í nánast hvaða grein sem er. Þegar ég þurfti að velja mér grein í Háskólanum fannst mér það HRÆÐILEGT, mér fannst ég vera að ákveða alla framtíð mína. Ég valdi sálfræði, en er ekki enn viss um það val, og er í raun á sama stað og ég var fyrir sex árum, þegar ég byrjaði á náttúrufræðibrautinni í MH.

Áhugaverðar sálfræðirannsóknir hafa sýnt að því fleiri valkosti sem fólk hefur, því ólíklegra er að það velji nokkurn þeirra. Til að mynda er ólíklegra að fólk kaupi sultu í matvöruverslun ef boðið er upp á 24 tegundir en ef boðið er upp á 8. Ég kannast líka afar vel við þetta. Ég hef tekið eftir þessu á útsölum. Eftir því sem fleiri föt fara á hagstætt verð því óákveðnari verð ég um hvað ég eigi að kaupa. Á endanum kaupi ég ekki neitt!!! Samkvæmt þessu ættu búðir að græða langmest á því að setja aðeins nokkrar vörur á lækkað verð. Ég vona samt að útsölurnar haldi áfram, það er svo gaman að skoða ;-)