25.4.04

Furðulegur draumur

Skrýtið hvað mig dreymir um absúrd hluti. Dreymdi í nótt að ég hefði fengið far hjá Davíð Oddssyni upp á heiði í einhverja kirkju. Þar sá ég afa minn. Kirkjan var allt í einu ekki lengur kirkja heldur elliheimili, þar sem afi og amma bjuggu við illan leik. Afi sýndi mér vistarverur sínar. Hann bjó í svo litlu herbergi að ekki var einu sinni hægt að liggja þar endilangur og hann var búinn að veggfóðra nakta veggina með pappaspjöldum. Ég vorkenndi honum svo að ég ákvað að gera eitthvað í málunum. Og eins og alltaf í draumum er það ekki alltaf mjög rökrétt. Ég ákvað sem sagt, með hjálp Rósalindar vinkonu, að tæla einhvern grey strák, til þess að afi minn gæti skipt við hann um líkama og orðið ungur á ný. Aumingja strákurinn var alveg í rusli þegar hann frétti að nýja kærastan hans væri bara plat.

Svo var það eitthvað meira, þetta var bara svo absúrd að ég man ekki hvað það var.

Sálfræðimoli: Það hefur komið í ljós að fólk á auðveldast að rifja upp hluti þegar það er í sama hugar- og líkamsástandi og þegar það lagði þá á minnið. Ef ykkur dettur til dæmis í hug að fá ykkur neðan í því og fara svo að læra fyrir próf er því betra að taka prófið fullur en edrú (eða þunnur :-Þ). Einnig væri heppilegast að læra í sömu stofu og þið takið prófið í.

Talið er að þetta sé hvort tveggja vegna þess að maður "festir" minningarnar við ákveðnar minnisvísbendingar þegar maður leggur eitthvað á minnið. Ef minnisvísbendingarnar eru svo allt öðruvísi þegar maður ætlar að rifja upp gengur illa að "finna" minningarnar.

Sumir telja að þetta fyrirbæri geti einnig skýrt af hverju fólk á erfitt með að muna drauma sína. Það er einfaldlega í allt öðru heila- og hugarástandi í vöku, þegar rifja á upp, heldur en í svefni, þegar fólk leggur á minnið.