31.5.04

Zzzzz...

Úff, ég svaf í 15 tíma í nótt! Hræðilegt þegar maður eyðir tímanum í svoleiðis vitleysu. Dreymdi meðal annars geimverur og að ég hafi týnt litlu frænkum mínum í skemmtigarði, og þær þurft að sofa í svefnpokum í ljósabekkjum. Hvaðan ljósabekkirnir og svefnpokarnir komu er óráðin gáta.

28.5.04

Í nótt dreymdi mig...

...að ég væri að keppa í Eurovision fyrir hönd Noregs. Engum sögum fer af því hvort ég hafi unnið.

26.5.04

Hljóðeinangraði klefinn

Í gær fór ég í fyrsta sinn inn í hljóðeinangraða klefann í myrkasta skoti kjallara Odda. Varð að prófa hann almennilega, setti því puttana í eyrun og öskraði ærlega. Trítlaði til Árna boss í næsta herbergi og spurði hvort hann hefði heyrt nokkuð. "Já, smá..." sagði hann, og horfði á mig eins og ég væri geðveik.

Ég gerði mér fljótt grein fyrir að þessi hljóðeinangraði klefi býður upp á marga möguleika. Þegar ég sá nokkra hljóðnema og græjur inni í honum hugsaði ég mér gott til glóðarinnar; Þetta gæti sko orðið fyrirtaks karaoke-klefi, og klefinn er minn, minn, MINN!

25.5.04

Dagurinn í dag í stikkorðum

Vakna
Sækja mömmu
Berjast við geitung
Fá frjóofnæmiskast
Fara til læknis
Bera tölvur
Berjast við tölvur
Berjast við afgreiðslukonur í 17
Versla mat
Koma heim
Horfa á Spirited Away (góð)
Halda áfram að vinna
Búin á því!

24.5.04

Ógsla kúl

Ég fæ sér tölvu og hljóðeinangraðan klefa fyrir tilraunina mína, erða eggi kúl?

Viljið þið verða tilraunadýr?

Ef þið viljið hugsanlega verða tilraunadýr í rannsókninni minni, hafið þá samband við mig. Þið þurfið ekki einu sinni að þekkja mig, bara hafa smá þolinmæði í að stara á tölvuskjá ;-) Það ætti nú að eiga við um ykkur bloggsjúklingana...

Allavega, netfang er heidasi@hi.is og sími er 695-6845

Sjónskynjunarverkefni

Nú er Árni sjónskynjunargúrú loksins kominn heim af ráðstefnu í Japan, sem þýðir að ég get fyrir alvöru byrjað á sjónskynjunarverkefninu mínu. Ég prófaði tilraunina í dag, úff! Hún er erfið. Var líka að fatta að Villi, sem ég ætlaði að nota sem tilraunadýr, er litblindur, svo það er ekkert gagn af honum, haha!

22.5.04

Afmælisdagabók

Viljið þið vera svo væn að skrifa í afmælisdagabókina mína? Ekki hika við það!

Hvað er Heiða búin að vera að hlusta á undanfarna daga?

Morrissey
The Streets
Roxy Music
Senor Coconut
Moloko
Air
Tónlistina úr 24 Hour Party People (mæli með myndinni líka)


Í nótt dreymdi mig að...

...ég væri að rækta lirfur og fiðrildi til manneldis. Eeeewwww!

Identity

Brrrr... Vá hvað ég varð hrædd þegar ég horfði á þessa mynd í gær! Ég var alveg að pissa á mig, bókstaflega. Ég pirraði Björn Leví mikið með tíðum klósettferðum á meðan á myndinni stóð. En ég mæli með þessari mynd, þrusugóð!

21.5.04

Enn einn skrýtinn draumur

Dreymdi í nótt að ég væri að diffra... sem ég var síðan ekki einu sinni að gera, heldur var ég að leysa út x í sínus-jöfnu. En alveg sam hvað ég var að gera, af hverju dreymir mig svona?!? Maður ætti nú að eyða dýrmætum draumatíma sínum í annað... Langar reyndar alveg að muna hvernig ég gerði þetta, ég er búin að gleyma þessum aðferðum.

20.5.04

Mjólk er góð

Á morgun muuuuu-n ég leika aukahlutverk í nýrri mjólkurauglýsingu. Fæ ágætan pening fyrir þetta, líka ;-)

19.5.04

Eru allir að ganga af göflunum?

Hvað er málið með þetta fjölmiðlafrumvarp? Það virðist draga fram það versta í öllum aðilum sem eiga hlut að máli. Stjórnvöld reyna að troða sínum málum í gegn eins og venjulega og Dabbi skýtur (eða skítur) á Ólaf eins og venjulega en EKKI eru nú fjölmiðlarnir sjálfir betri. Mér ofbýður hreinlega að sjá hvað Fréttablaðið er litað í sinni umræðu um þetta mál. Það er nær aldrei skrifað um hvað er í þessu blessaða frumvarpi, bara endalaust talað um hvað það og stjórnvöld séu ömurleg. Ef fjölmiðlar ætla að láta svona lagað hafa áhrif á málflutning sinn rennir það einfaldlega stoðum undir þá hugmynd að það þurfi svona frumvarp. Og eins og Guðný vinkona sagði í gær þá er fáránlegt að enginn kippi sér mikið upp við það þótt verið sé að troða á rétti litla mannsins (mér nægir að nefna öryrkjamálið og útlendingalögin) en allt verði KOLBRJÁLAÐ ef einhver reynir að gera eitthvað á hlut ríkustu mannanna í landinu. ERU ALLIR AÐ GANGA AF GÖFLUNUM?!?

16.5.04

Er ég komin með þol, eða hvað?

Ótúlegt! Í gær drakk ég frá klukkan þrjú um daginn þar til klukkan þrjú um nóttina og vaknaði nær óþunn í morgun! Eina sem var að mér var að ég missti næstum röddina vegna mikillar sönggleði í heita pottinum.

15.5.04

Vorferð Animu

Nú fer ég bráðum að halda á vit ævintýranna því eftir einn og hálfan tíma á ég að vera mætt í Odda, þar sem við tekur óvissusprell. Síðan verður haldir í Syðra-Langholt þar sem mannskapurinn mun njóta listviðburðar (Júró) og eftir það tekur Dr. Fíbl (Andri) við með sensí-hópa sína og ætlar að aðstoða sálfræðinema við að finna sitt innra sjálf.

Já, ég djammaði líka í gær, mér finnst það nú ansi vel af sér vikið. Andri eldaði ofan í okkur Baldur einn besta mat sem ég hef smakkað. Finnst vel þess virði að borða hann þótt ég verði ekki alveg eins flott í bikiníinu mínu í kvöld fyrir vikið.

11.5.04

Vinnan

Nú eru tveir dagar búnir í nýju vinnunni á Félagsvísindastofnun. Mér líkar bara vel, enda búin að fá að sinna ýmsum ábyrgðarfullum störfum, svo sem að fara út í búð að kaupa G-mjólk og vaska upp ;-) Er líka í ýmsum innsláttarverkefnum og að vinna með létta tölfræðiútreikninga. Bara mjög fínt, og ég held meira að segja að ég sé að gera eitthvert gagn. Eina sem er vont við þetta er að maður fær svo hrikalega í bakið við það að sitja allan daginn við tölvu að pikka. Maður hefði reyndar haldið að ég ætti að vera í fínni æfingu eftir að hafa bloggað allan daginn í próftörninni, ehehe :-/

10.5.04

Mont mont

Það vilja bara allir fá mig í vinnu þetta sumarið. Hringdi áðan í mig mannfræðingur sem sagði að Sigurður Grétarsson hafði gefið mér svo ofsalega góð meðmæli og að hún vildi fá mig í eitthvert Nýsköpunarsjóðsverkefni (takk, Sigurður :-)). Ég sagði henni náttúrulega að ég væri á kafi í öðrum verkefnum. Meira hvað maður er vinsæll eitthvað, ha? ;-)

8.5.04

Ekkert að gera - gaman, gaman

Ég ákvað í gær eftir prófið að vera enginn aumingi og fór því í Kringluna með Sesselju í stað þess að fara að sofa. Fórum á Hard Rock og ég fékk þar minnsta bjór sem ég hef nokkurn tíma séð (hugsið um fingurbjörg). Prúttaði niður verð á bol úr 3000 kr í 2000 kr, svona bara af því bara, ekkert að bolnum :-), keypti mér bikiní og Amélie-diskinn sem mig hefur lengi langað í. Sem sagt: Ég gerði bara nákvæmlega það sem mér sýndist. Skemmtileg tilbreyting.

Þegar ég kom heim ætlaði ég nú að gera ýmislegt en í staðinn steinsofnuðum við Björn bæði upp úr klukkan sjö og sváfum til hálftíu í morgun! Og ég er ekki með neitt samviskubit, HAHA! Dreymdi að vísu enn einn furðulega drauminn. Man ekki helminginn af honum nema í þessum var ég að bjarga einhverjum kjúklingum og flúði niður í kjallara með þá frá hinum vonda föður mínum (einhver ímyndaður karl hjá mér). Þar voru önnur gæludýr, meðal annars bollubýfluga sem átti heima í búri sem leit út eins og enn stærri býfluga, og könguló, sem gat sogað mat upp í gegnum fæturna á sér!?!

Allavega, Björn er búinn að skipa mér að fara ekki að taka til heldur að fara að lesa Lifandi vísindi og horfa á Coupling-þætti. Og konur eiga náttúrulega að hlýða karlinum sínum, er það ekki?

7.5.04

Gagnkvæmni og áhrif hennar á fortölur

Þetta er ein af spurningunum sem komu á prófinu í dag. Ég birti hana hér af því að svarið við henni er ekki mjög tæknilegt svo allir ættu að skilja hvað verið er að fara og efnið er nokkuð áhugavert. Ég held nú samt að ég fái ekki Bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir þessi skrif:

Samkvæmt kenningunni um félagsleg skipti (social exchange theory) eru öll, eða nær öll, mannleg sambönd byggð á gagnkvæmni (reciprocation). Samböndum er viðhaldið á þann hátt að maður gefur bæði og þiggur. Gagnkvæmnisreglan (reciprocity principle) segir til um að ef fólki finnst einhver gerir eitthvað fyrir sig þá verði það að gera eitthvað á móti.

Í venjulegum aðstæðum virkar gagnkvæmisreglan yfirleitt til góðs, því hún eykur samhjálp og tryggir sambönd. Hún getur samt einnig verið notuð annarra, ekki jafn góðra, verka. Tökum dæmi úr matvöruverslun. Oft er þar fólk sem býður þeim sem koma í búðina upp á smakk. Ef fólk þiggur smakkið á það afar erfitt með að labba bara í burtu án þess að kaupa neitt af sölumanninum. Þar sem sölumaðurinn gerði því greiða (gaf litla gjöf) finnst fólki það skuldbundið til að endurgjalda greiðann. Annað dæmi er um fólk í Hare Krishna samfélaginu, sem gefur fólki á opinberum stöðum gjöf, svo sem blóm. Ef fólk reynir að neita að skila blóminu til Krishna-fólksins neitar það að taka við því, en biður e.t.v. fólk um að gefa pening til Krishna-samfélagsins. Fólkið sem þáði gjöfina, jafnvel það sem ekki vildi hana, var líklegra til að gefa pening! Manni þarf því ekki að finnast mikið til greiðans koma til að finnast maður þurfa að endurgjalda hann. [Ýmislegt annað er hægt að nefna, svo sem jólakort frá hjálparstofnunum, Tupperware-kynningar þar sem maður fær litla gjöf, drykkur á bar fyrir kynlíf og margt fleira.]

Rannsóknir hafa sýnt að oft er endurgjaldið margfalt meira en upphaflegi greiðinn. Í einni rannsókn var vitorðsmaður rannsakandans látinn kaupa kók handa sumum þátttakendum en ekki öðrum. Allir sem fengu kók þáðu það (annað hefði undir þessum kringumstæðum verið talið dónalegt). Vitorðsmaður var því næst látinn segja þátttakanda að hann væri í sölukeppni um það hver gæti selt flesta happdrættismiða og spurði hvort þátttakandinn vildi kaupa af sér einn eða fleiri miða. Það var ekki nóg með það að þeir sem fengu kók keyptu fleiri happdrættismiða heldur skipti engu máli hvort þeim líkaði vel eða illa við vitorðsmanninn, nokkuð sem undir öðrum kringumstæðum getur skipt miklu, sem sýnir hvað gagnkvæmnisreglan er öflug. Að auki keyptu þeir miða fyrir að meðaltali fimmfalt andvirði kókflöskunnar sem þeim hafði verið gefin! Ef til vill eru óþægindin sem fylgja því að finnast maður vera skuldbundin einhverjum svo mikið að maður er einnig tilbúinn til að gera mikið til að losna við þau.

Til að gagnkvæmnisreglan virki þarf ekki endilega að gefa gjafir heldur geta greiðarnir verið af ýmsum toga. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólki finnst einhver bakka með kröfur sínar er það oft einnig til í að bakka með sínar eigin kröfur. Þetta tengist ákveðinni tækni sem kallast door-in-the-face. Hún virkar á þann hátt að sendandi fortöluboða biður viðtakanda þeirra fyrst um eitthvað mjög mikið sem hann er í raun viss um að viðtakandi hafni, en biður þá í staðinn viðtakanda minni bónar. Við það er viðtakandi líklegri til að samþykkja minni bónina heldur en ef sendandi hefði einungis beðið hennar, án stærri bónarinnar fyrst.

Dæmi:
1. Að gefa blóð á tveggja mánaða fresti í tvö ár vs. að gefa blóð einu sinni daginn eftir.
2. Að kenna krökkum í 15 tíma á viku vs. að fara einu sinni með krakkana í bíó eða á safn.
3. Að svara stórri viðamikilli könnun sem tekur langan tíma vs. að fylla út könnun sem tekur aðeins korter.

Door-in-the-face aðferðina er hægt að skýra með vísun í gagnkvæmisregluna. Fólki finnst sendandi hafa bakkað með kröfur sínar með því að biðja nú um minni greiða. Því finnst fólki það vera skyldugt til að gera sendanda fortöluboðanna greiða á móti, með því að samþykkja minni bón hans. Það sem styður þessa skýringu á áhrifum door-in-the-face er að ef einn sendandi biður stærri bónarinnar en annar biður minni bónarinnar virkar tæknin ekki eins vel. Viðtakendum finnast þeir ef til vill ekki "skulda" seinni sendandanum greiða, þar sem hann gerði þeim ekki greiða með því að minnka kröfurnar. Annað sem passar við þessa skýringu er að því meiri munur sem er á stóra og litla greiðanum, það er því meira sem sendandinn virðist bakka með kröfur sínar, því líklegra er fólk til í að samþykkja minni bónina (því finnst það skulda meira). Upphaflegi greiðinn má þó ekki vera fáránlega stór, því þá finnst fólki frekar eins og verið sé að spila með sig.

Eitt sem er áhugavert við door-in-the-face er að fólk sem lendir í því að samþykkja að gera sendanda fortöluboða minni greiðann í door-in-the-face er einnig líklegra til að vilja gera sams konar greiða aftur og til að standa við greiðann. Það er einnig í flestum tilfellum ánægðara með þann kost sem það valdi en fólk sem fellst á sama kost án þess að hafa verið boðinn verri kostur áður. Þetta gæti að hluta skýrst vegna perceptual contrast principle, þ.e.a.s. að manni finnist minni greiðinn vera enn minni ef maður miðar hann við stærri greiðann heldur en ef maður hefur ekkert til að miða við. Einnig gæti hluti skýringarinnar verið að fólki finnst í þessu tilfelli það hafa eitthvað haft að segja með útkomuna, að það hafi sjálft fengið flytjanda fortöluboðanna til að bakka og hafi því "unnið" að einhverju leyti.

That's-not-all aðferðin virkar á þann hátt að sendandi fortöluboða, yfirleitt sölumaður, býður viðtakanda einhverja vöru og nefnir verð. Áður en viðtakanda gefst tækifæri á að ákveða hvort hann vilji kaupa vöruna á því verði bætir sendandinn við að "þetta sé ekki allt" heldur fái sendandi eitthvað aukalega með fyrir sömu upphæð. Þetta eykur líkurnar á því að fólk kaupi vörurnar umfram það að sama verð væri kynnt en inni í því væri strax settur allur pakkinn, bæði það sem kynnt var í that's-not-all tækninni sem "standard" inni í verðinu og það sem var svo "aukalega".

Dæmi:
Sálfræðinemar halda kökubasar. Fólk spyr hvað kökurnar kosti og er tjáð að þær kosti 75 cent hver. Eftir stutt samtal á milli sálfræðinemanna "ákveða" þeir að innifalið í verðinu séu tvær litlar kexkökur (that's-not-all). Fólk keypti frekar kökur ef þetta var sett svona upp heldur en ef því var strax sagt að pakki með einni köku og tveimur kexum kostaði 75 cent.

Gagnkvæmnisreglan gæti skýrt þetta. Með því að láta líta út fyrir að sendandi sé að gera viðtakanda greiða með því að láta hann fá meira fyrir peninginn en hann ætlaði fyrst að gera finnst viðtakandi hann þurfa að gera eitthvað í staðinn og kaupir því frekar vöruna.

Gagnkvæmisreglan er greinilega mjög innprentuð í fólk. Með því að gera fólki greiða er hægt að láta það gera manni stærri greiða, jafnvel þótt því hafi ekkert til þess komið sem maður gerði fyrir það. Það er líklegra til að standa við greiðann, er tilbúnara með að gera manni greiða aftur og er ánægðara með að gera manni greiða en ef maður hefði ekki gert neitt fyrir það. Margt óprúttið fólk hefur því nýtt sér þetta til að græða á grunlausu fólki, og það getur verið erfitt að verja sig fyrir þeim. Það er til dæmis bæði óþægilegt að þiggja en gefa ekki eða neita að þiggja. En ekki má gleyma því að gagnkvæmnisreglan virkar líka í hina áttina, ef einhver gerir eitthvað á þinn kostnað má gera eitthvað á hans, eða auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Þegar sölumenn ætla næst að gefa eitthvað getur því verið ágætt að endurskilgreina stöðuna. Ef maður fattar að það er í raun ekki verið að gera eitthvað fyrir mann heldur er verið að reyna að notfæra sér mann, ætti maður bara að notfæra sér sölumennina, þiggja gjöfina frá þeim og henda þeim síðan öfugum út :-)

Búin!

Púst! Barasta búin í prófum. Ég er svo þreytt! Ég var að læra til fjögur í nótt og sofnaði um hálffimm, uppfull og asnaleg af kaffi og var farin að fá hjartsláttartíðni upp á 120 í hvíld og öndunartruflanir. Já, þetta leggur maður á sig. Gekk annars vel í prófinu. Er nú að reyna að ákveða hvort ég eigi að fara í Kringluna að verðlauna mig (kaupa föt) eins ógeðslega útlítandi og ég er núna, eða hvort ég eigi bara að fara heim að gera ekki neitt til tilbreytingar. Svo er enginn til að djamma með, það er enginn búinn nema ég :-( Uss annars, ætti ekki að vera að vorkenna mér, þetta er búið, jibbí :-D

6.5.04

Vinna og skóli

Úff, vaknaði í morgun með streituhnút í maganum. Síðasta prófið er á morgun :-D Fer síðan að vinna á Félagsvísindastofnun strax á mánudaginn. Ekki mikið um afslappelsi hjá mér...

5.5.04

We are the robots

Uhu, mig langar á Kraftwerk í kvöld... Verð bara að læra samt, en synd að missa af þessum frumkvöðlum. Fyrsta lagið sem ég heyrði með þeim var örugglega í Nýjustu tækni og vísindum. Nú er það bara hætt, svolítill missir að því líka.

Mæli með Senor Coconut spila lögin þeirra, algjör snilld. Þarf að grafa hann upp einhvers staðar aftur...

Bjór

Sit hér og sötra einn slíkan. Mmmmm...

Kjaftasaga

Í fyrra þegar ég var í lífeðlislegri sálfræði var prófið nákvæmlega eins og það hafði verið árið áður. Ekki einn einasti kross var á annan veg! Ég var náttúrulega grautfúl yfir þessu og var skapi næst að kvarta yfir þessum kennara sem nennti ekki einu sinni að prumpa út einu nýju prófi. Ég gerði það samt ekki því ég vissi að allir yrðu fúlir næsta ár ef ég gerði það. Einhver hefur samt (réttilega) kvartað svo nú í ár var prófið glænýtt og erfitt. EEEEN nú gengur sú kjaftasaga að þetta sé vegna þess að ég klagaði kennarann. :( :( :( Ég vildi bara óska að ég hefði kvartað í raun og veru fyrst að ég þurfti hvort sem er að lenda í þessu.

4.5.04

Tónlist

Það er ég er að kynna mér

1. N.E.R.D.
2. Outkast
3. The Smiths
4. Hampton the hamster - The hamster dance (brrr...)

Það sem ég ætla að kynna mér

1. The Strokes
2. Air - Talkie Walkie
3. Damien Rice
4. Travis

Hlakka mikið til í sumar þegar ég get alveg hreint legið klukkutímunum saman að hlusta á tónlist. Er svo óheppin að geta bara ALLS EKKI lært við tónlist, sem kemur oft í veg fyrir að ég geti yfirleitt hlustað á tónlist á veturna :-(

Útlendingalögin

Það er svolitið skrýtið að vegna allra látanna yfir fjölmiðlafrumvarpinu hefur útlendingafrumvarpið náð fram að ganga svo til án þess að nokkur væri að skipta sér af því. Þetta frumvarp finnst mér í raun vera mun alvarlegra en hitt, og mun andlýðræðislegra. Hvað eru þessi stjórnvöld að hugsa? Ef ég botnaði einhvern tíma eitthvað í þeim, þá er ég alveg hætt að gera það núna.

3.5.04

Svo sammála Baggalútsmönnum!

Samdráttur á fjölmiðlamarkaði getur hafi mikil áhrif, þar sem þekkt er að fjölmiðlar geta verið mjög áhrifamikil áróðurstæki. Ég efast þó stórlega um að það sé þetta sem ríkisstjórn Íslands, með Dabba kóng í fararbroddi, er svo annt um. Baggalútsmenn komast betur að orði en ég...

Skynjun búin

Ég er fegin að ég er ekki berdreymin. Í nótt dreymdi mig nefnilega að ég væri að fara í próf í Stærðfræðigreiningu 2 sem ég kunni náttúrulega ekki rass í plús að ég svaf yfir mig og kom tveimur tímum of seint. Vaknaði í svitabaði, eftir minna en 5 klst svefn.

Var að koma úr prófi í skynjun og gekk bara vel. Sé það reyndar að ég lærði allt of nákvæmlega, hefði getað látið mér nægja að læra aðallega það sem stóð í glósunum.

2.5.04

Ansi var ég heppin þarna

Púff. Mikið er ég fegin að ég skipti úr tölvunarfræði 2 yfir í fortölur, annars hefði prófið verið á nákvæmlega sama tíma og skynjunarsálfræði!

Frumsjónbörkur (V1) og þáttur hans í meðvitaðri skynjun (útdráttur úr grein Frank Tong)

Leið sjónboða um heilann

Sjóna --> LGN -- 90% --> V1 --> V2, V3, V4, MT og fleiri svæði --> svæði sem hafa með sjónminni, athygli og hreyfiplönun að gera (nýta sjónupplýsingar til hreyfinga). Fá nær allar upplýsingar beint eða óbeint gegnum V1. Hin 10% fara frá LGN til efri hóla í tectum og þaðan til extrastriate cortex, hefur að gera með augn- og höfuðhreyfingar ásamt dýptarskynjun.

Brautir liggja ekki bara frá V1 til annarra svæða, heldur fær hann fullt af upplýsingum tilbaka, m.a. frá svæðum sem hann tengist ekki nema óbeint í gegnum önnur svæði. Bendir til samvirkni í anda samvirknilíkana um áhrif V1 á meðvitund.

Þegar ofar kemur í sjónkerfið fara móttökusvæði taugafrumna, þ.e. það svæði í sjónsviði sem hefur áhrif á svörun þeirra, að stækka. Einnig fara frumurnar að svara flóknari áreitum. Taugafrumur í sjónu og LGN svara aðeins við upplýsingum frá öðru auganu. Móttökusvæði þeirra eru lítil og hringlaga með center-surround skiptingu. Í V1 fer fram mun flóknari úrvinnsla. Þar eru til frumur sem svara við halla, hreyfingu, lit, eru næmar fyrir ákveðnum birtuskilum, svara við ákveðinni flatartíðni og hafa ákveðið augnræði, þ.e. eru næmar fyrir upplýsingum frá báum augum, en mismikið eftir frumum.

Þessi boð eru svo send áfram til sérhæfðari úrvinnslu í öðrum svæðum eftir dorsal pathway/Hvar-braut, sem sér aðallega um hreyfingu, dýpt og annað sem þarf til að geta gert eitthvað, og ventral pathway/Hvað-braut, þar sem úrvinnsla um lit, form og annað sem skiptir máli til að bera kennsl á hluti fer fram.

Sjónskynjun felur í sér túlkun og felur aðallega í sér tvennt: Úrvinnslu upplýsinga og meðvitaða skynjun. Mikið er vitað um hvernig V1 vinnur úr upplýsingum en menn deila um hve mikið hann hefur með meðvitund að gera. Eldri rannsóknir sýndu að aðallega var fylgni á milli virkni í extrastiate cortex og meðvitundar, en seinni tíma rannsóknir benda til þess að slíkt samband við skynjun sé einnig að finna í V1.

Ef V1 hefur eitthvað með meðvitund að gera er hægt að skýra það á a.m.k. tvennan hátt:

Hierarchical models (“þrepakerfislíkön”) gera ráð fyrir að V1 hafi aðeins áhrif á skynjun á þann hátt að ef hann skemmist skerist á þær brautir sem flytji upplýsingar til æðri sjónsvæði, sem sjá um meðvitund. Sumir hafa gengið svo langt að segja að aðeins þau svæði sem tengist prefrontal cortex, sem sér um að plana hreyfingar, geti haft bein áhrif á meðvitund, en aðrir segja að svæði í parietal lobe, sem tengjast athygli, geti einnig haft áhrif og viðurkenna einnig top-down áhrif frá athygli, þ.e. athyglin ræður því úr hvaða upplýsingum er unnið frekar. Gert er ráð fyrir að ef þessi svæði í extrastriate cortex haldist óbreytt þá skipti ekki máli fyrir meðvitund hvort V1 skaddist.

Interactive models (“Samvirknilíkön”) gera aftur á móti ráð fyrir samvirkni á milli V1 og annarra heilasvæði, og þessi samvirkni valdi meðvitaðri skynjun. Gert er ráð fyrir að efri svæði geti allt eins sent boð tilbaka til V1, t.d. um athygli eða upplýsingar um perceptual grouping, sem hafi aftur áhrif á úrvinnslu V1 og hvaða boð hann sendir áfram. V1 er því bráðnauðsynlegur og ræður því hvaða boð sendast til prefrontal cortex og annarra svæða. Gert er ráð fyrir að ef V1 skaddist hafi það alltaf áhrif á meðvitund þar sem V1 er hluti af stærra “meðvitundarkerfi”.

Blindsight og áhrif skemmda í V1
Fólk með skemmd í V1 segist ekki sjá neitt á því svæði í sjónsviði sem skemmdin samsvarar. Lítil sem engin meðvituð sjónskynjun. Sumt fólk með slíka skemmd er aftur á móti með svokallaða blindusjón. Ef það er látið “giska”, t.d. hvort eitthvað hreyfist upp eða niður eða hvernig eitthvað er á litinn, verður árangurinn betri en ætla mætti vegna tilviljunar. Apar sýna mjög svipaða hegðun þegar V1 er skemmdur hjá þeim. Að V1 sé crucial fyrir meðvitund á þennan hátt styður samvirknikenningar. Þetta bendir einnig til þess að meðvitund og úrvinnsla sjónupplýsinga sé aðskilin að einhverju leyti. Extrastriate cortex virðist fá upplýsingar fá öðrum heilasvæðum, t.d. efri hólum, og er tiltölulega virkur áfram. Upplýsingar þaðan geta því stýrt hegðun, án meðvitundar (virkum dálítið eins og róbótar).

Áhrif skemmda í extrastriate cortex
Extrastriate cortex skemmdir hafa mun afmarkaðri áhrif á sjón en skemmdir í V1. V2 sér að einhverju leyti um perceptual grouping, V4 og nálæg heilasvæði virðast hafa með litaskynjun að gera, MT er mikilvægt fyrir hreyfiskynjun, IT fyrir formskynjun, þar af FFA fyrir andlitsskynjun, skemmdir í parietal-blaði öðru megin leiða til Neglect syndrome í contralateral sjónsviði en skemmdir báðum megin geta valdið Balint’s syndrome sem gerir það m.a. að verkum að fólk getur ekki veitt athygli nema einu í einu (simultanagnosia).

V1 virðist vera eina svæðið sem veldur algjöru “meðvitundarleysi”, óháð því hvort extrastriate cortex sé áfram virkur, og styður það interactionista.

Binocular rivalry
Það er vel þekkt að þegar mismunandi myndir eru birtar hvoru auga skiptist meðvitund manns og athygli á milli myndanna tveggja. Þetta hefur mikla samsvörun í taugakerfinu. Í svæði IT (inferotemporal) í öpum eru frumur sem svara í takt við það hvort áreiti sem þær svara venjulega við sé í meðvitund (virkni eykst) eða hvort hitt áreitið sé í meðvitund (virkni minnkar). Aftur á móti virðast svona frumur ekki vera í V1 í öpum.

Ef rannsóknir á fMRI heilaskönnunum í mönnum eru aftur á móti skoðaðar sést að V1 í mönnum virðist svara á þennan hátt. T.a.m. ef tveimur mismunandi áreitum er varpað á sjónu í hvoru auga innan blinda bletts augans (sem heilinn þarf að fylla upp í) kemur fram svona virkni í takt við meðvitund á samsvarandi stað í V1. Virknin var jafnsterk eins og maður hefði verið að sýna þá mynd sem svæðið svaraði við þegar meðvitundin var á henni, en taka hana í burtu, þegar meðvitundin var á hinni myndinni. Sömuleiðis kom fram svona virkni þegar ljósgreiður af mismunandi birtuskilum voru birtar hvoru auga.

Sem sagt: V1 er mikilvægur fyrir meðvitund!

Ef öpum er birt ákveðið sjónáreiti er virkni í V1, eftir dálítinn tíma, háð því hvort aparnir hafi fundið áreitið eða ekki, þ.e. líklega hvort það hafi náð meðvitund eða ekki. Taugavirkni tengd skynjun. Það að þetta gerist aðeins eftir dálítinn tíma styður það að þetta geti verið vegna samvirkni við önnur æðri sjónsvæði, eins og interactionistar gera ráð fyrir. Slík samvirkni er háð því að æðri sjónsvæði sendi boð tilbaka til V1, og tekur því tíma.

Það virðist einnig vera mikið samband á milli virkni í extrastriate cortex og meðvitundar um sjónáreiti. Í sumum tilvellum er antagonístískt samband á milli V1 og extrastriate cortex. Þegar maður skiptir t.d. á milli þess hvað manni finnst vera hlutur og hvað bakgrunnur í reversible figures kemur fram aukin virkni í extrastriate, parietal og frontal svæðum, með samsvarandi minnkaðri virkni í V1!

V1 virðist vera nauðsynlegur en ekki endilega nægjanlegur fyrir meðvitaða skynjun. Ýmis áreiti sem maður skynjar ekki meðvitað geta haft áhrif á virkni í V1. Það sama gildir í raun um extrastriate cortex, eins og sjá má á blindsight sjúklingum. Hjá þeim er extrastriate cortex virkur, en þeir hafa ekki meðvitund um sjónáreiti. Að hvort tveggja þurfi styður samvirknikenningar.

Ýmis meðvituð sjónskynjun er ekki vegna utanaðkomandi áreita. Slík sjónskynjun virðist meira tengjast virkni í extrastriate cortex, en V1 tengist frekar raunverulegum sjónáreitum. Ofskynjunarir geðklofasjúklinga eru t.a.m. aðallega vegna extrastrate virkni, en ekki í V1. Sömuleiðis er meiri extrastriate virkni en V1 virkni þegar mann dreymir, en öfugt í vöku. Raferting V1 leiðir til þess að manni finnst maður sjá alvöru sjónræna grunnþætti eins og ljós, liti o.s.frv. Aftur á móti leiðir raferting í temporal lobe (ventral stream) til þess að maður sér fyrir sér (en finnst það ekki vera í alvörunni) fólk eða hluti, eins og maður sé bara að hugsa um þetta eða dreyma það.

Summary:
V1 er nauðsynlegur fyrir meðvitund og virkni þar er nátengd ýmissi skynjun. Margt bendir til þess að “æðri” heilastöðvar sendi upplýsingar tilbaka til V1 og þær hafi áhrif á úrvinnslu V1 sem aftur hafi áhrif á æðri heilastöðvar. Athyglisstöðvar virðast t.d. gegna mikilvægu stýrihlutverki. Styður í heild samvirknikenningar um sjónskynjun.

She wants to move (hreyfiskynjun)

Jæja, hér kemur meira af skynjunarsálfræðiefni sem enginn nennir að lesa. Finnst þetta samt ágætt að gera þetta, ég æfi mig þá í þessu í leiðinni (er sko að fara í prófið á morgun).

Real movement
Duh! Þröskuldur fyrir að geta séð hana er um 1/3 til 1/6 af sjóngráðu á sekúndu. Verður reyndar mun neðar ef maður bætir fleiri vísbendum við í umhverfinu sem hægt er að miða við (Gisbon yrði hrifinn af þessu).

Apparent movement/stroboscopic movement
Eins og er notað í kvikmyndum og ljósaskiltum. ISI (interstimulus interval) skiptir máli fyrir hvað við sjáum. Yfir 300 ms: Ljósin virðast blikka af og á, engin skynjuð hreyfing. 60 ms: Betahreyfing, ljós fer á milli. 30 ms: fíhreyfing, einhver óskilgreind hreyfing á milli en ljósin virðast samt blikka. Undir 30 ms: Engin hreyfing. Athuga þó að bilið á milli ljósanna skiptir máli, ef bilið verður meira hækka þessar tölur. Getur einnig dugað að hafa ljósin sterkari með sömu tölum. Er í samræmi við það að það taki meiri tíma að færa sig yfir lengri vegalengd (þumalputtaregla sem sjónkerfið virðist nota).

Induced movement (“aðleidd hreyfing”)
Ef stærri hlutur hreyfist á bak við minni hlut áætlar maður oft að minni hluturinn sá á hreyfingu, sbr. þegar manni finnst tunglið hreyfast en ekki skýin.

Vection (sbr. vektor, stærð með stefnu?)
Frekar óþægileg tilfinning, sem maður getur fengið eftir að hafa horft á eitthvað hreyfast og finnst maður sjálfur fara að hreyfast. Sbr. að standa á brú og horfa niður í vatnið, og finnast maður allt í einu hreyfast en ekki vatnið.

Movement aftereffect
Fossaskynvillan (horfa á eitthvað hreyfast niður, frumur “þreytast”, og þá virðist umhverfið hreyfast upp), spiral motion aftereffect (Búddagaur).

Reichardt-nemi
Taugatengingar sem hægt væri að nota til að láta frumu aðeins stjóta við hreyfingu í eina átt. Byggir á hömlunarbúnaði þar sem ef önnur hver fruma í efsta laginu sendir hamlandi taugaboð á nágranna sinn í aðra áttina þegar hún örvast.

Ef áreiti fer í þá átt sem Reichhardt-neminn svarar ekki við (hér til hægri) verður svörunin einhvern veginn svona: Fruma A skýtur og örvar G sem hamlar H, B skýtur og örvar H, en það er ekki nóg til að vekja virkni í henni vegna hamlandi boða frá G. H örvar því ekki M. Þetta gerist aftur alveg eins í C og D, og í E og F.

Ef áreiti fer í rétta átt (til vinstri) verður þetta einhvern veginn svona: Fruma F örvar frumu L, engin hamlandi boð eru á frumu L svo hún skýtur og örvar M. E skýtur og virkir K sem hamlar L, en hömlunin kemur of seint, því L hefur þegar örvað M. Þetta endurtekur sig fyrir D og C, og B og A.

A B C D E F
G H I J K L

M

Athuga að svona nemi gæti svarað á svipaðan hátt við raunverulegri hreyfingu og apparent movement. Líklega sömu taugamekanismar sem sjá um hvort tveggja, þótt þeir geti verið flóknari en þetta.

Hreyfing og taugakerfið, svæði MT (medial temporal) í dorsal stream (Hvar-straumurinn)

Margt sem bendir til að MT sjái um hreyfiskynjun. Fólk með skemmd í þessu svæði sér ekki hreyfingar (Motion agnosia eða hreyfiókynni). Apar sem þetta svæði er skemmt í eiga í mestu vandræðum með að meta hvert áreiti hreyfast. 90 % frumna í þessu svæði eru áttanæmar og þeim er raðað á börkinn eftir átt í columns. Ef maður rafreitir frumur sem svara við hreyfingu í ákveðna átt verða apar næmari fyrir slíkum hreyfingum.

Tilraun: Öpum var kennt að svara því í hvaða átt punktar hreyfðust. Mismikið af punktunum hreyfðust í ákveðna átt, en restin hreyfðist randomly. Þegar innan við 1% punktanna hreyfist saman kom lítil virkni fram í Mt umfram grunnvirkni og aparnir svöruðu eins og þeir væru að giska. Eftir því sem fleiri punktar hreyfðust saman, því meira svaraði MT og aparnir urðu sömuleiðis betri í að meta. Sterkt samband á milli skynjunar og taugavirkni, nálgast jafnvel specificity-kóðun á hreyfingu, þ.e. ömmufrumur en ekki mynstur í virkni margra frumna sem gefur hreyfingu til kynna.

Corollary Discharge Theory
Reynir að skýra hvers vegna maður getur skynjað að eitthvað sé á hreyfingu þegar maður fylgir því eftir með augunum. Þá er það sem er á hreyfingu alltaf á sama stað á sjónu. Einnig reynir hún að skýra af hverju manni finnst umhverfið yfirleitt vera kyrrt þótt maður hreyfi augun og þar af leiðandi lendi hlutirnir á mismunandi punktum á sjónu.

Sjónkerfið virðist reikna hreyfingar augans frá, eða öllu heldur þær hreyfingar sem heilinn gefur skipun um. Ef gefnar eru hreyfiskipanir, en augað er lamað, virðist veröldin hoppa til því heilinn leiðréttir fyrir hreyfingar sem voru svo ekki gerðar.

Nánar um þessa kenningu. Byggir á þrenns konar boðum. Movement signal eru hreyfiboðin sem send eru auga. Corollary discharge signal er kópering af movement signal sem sent er er til strúktúrs sem kallast comparator . Image movement signal er sent frá augum til comparators þegar mynd færist yfir sjónu. Ef comparatorinn fær bara önnur hvor boðin skynjast hreyfing en ef bæði koma í einu geta þau núllað hvort annað út.

Dót sem styður kenninguna:

Neikvæðar eftirmyndir (blettirnir sem maður sér eftir að hafa glápt á ljós) virðast hreyfast. Bara corollary discharge signal en ekkert image movement signal.

Dæmið með lamaða augað. Sömuleiðis bara corollary discharge en ekkert image movement.

Að fylgja hlut eftir. Bara CDS en ekkert IMS.

Að ýta á augað svo veröldin hoppi til. Gæti skýrst af því að ekkert CDS kemur en IMS kemur (sumir segja reyndar öfugt).

Líka til frumur í V3 í öpum sem svara við raunverulegri hreyfingu ákveðins áreitis en ekki þegar áreitið færist nákvæmlega eins yfir sjónu vegna þess að apinn hreyfir augun sjálfur. Fær upplýsingar um CDS og IMS? Real movement frumur.

Gibson og ecological approach to movement perception
Pældi minna í því sem gerðist í ákveðnum taugafrumum eða á sjónu, en meira í því sem gerist í sjálfu umhverfinu þegar eitthvað hreyfist eða fólk hreyfist sjálft.

Optic array
Frá Gibson komið og vísar til allra þeirra flata, útlína og áferðar sem við sjáum. Optic array breytist við hreyfingu. Ef eitthvað hreyfist breytist það miðað við annað í optic array, og því skynjar maður það á hreyfingu. Tengist áreitisföstum Gibsons og accretion and deletion sem maður notar til að skynja dýpt.

Global optic flow
Vísar til þess að þegar maður hreyfir sig virðist allt umhverfið hreyfast í öfuga átt við mann sjálfan. Vegna þess að allt í optic array hreyfist virðist umhverfið vera kyrrt.

Perceptual organization by movement
Maður grúppar element í umhverfi sínu eftir hreyfingu þeirra.

T.d. Gestalt-lögmálið law of common fate sem segir að það sem hreyfist í sömu átt skynjist sem ein heild. Þess vegna frjósa dýr oft þegar þau skynja að óvinur er í nánd. Þau vilja ekki að óvinurinn grúppi þau í góða máltíð! Einnig samanber strikafuglinn innan um random strik sem maður sér bara þegar hann hreyfist og random dots þar sem hluta punktanna er hliðrað.

Tengist líka lífhreyfingu/biological motion . Ef ljós eru fest á liðamót manneskju grúppast ljósin saman við hreyfingu og maður skynjar manneskjuna. Fólk hættir að sjá hreyfingar einstakra ljósa en sér þau sem held. Eru frumur í superior temporal bæði hjá öpum og mönnum sem virðast svara við svona lífhreyfingu en ekki við annarri hreyfingu.

Kinetic depth effect (dýptarskynjun vegna hreyfingar)
Ef skugga af þrívíðum hlut er varpað á vegg skynjar maður hann sem tvívíðan, allt þar til hann er látinn hreyfast, þá þrívíddarskynjun. Frumur í MT, aðalhreyfisvæðinu, svara við slíkri hreyfingu.

Motion capture
Að “ná” einingum saman í heild vegna þess að þær eru innan sama svæðis sem hreyfist, eindirnar virðast færast með.

Dæmi: Beygja vír í lykkju og horfa á “snjó” í sjónvarpi gegnum lykkjuna. Færa síðan lykkjuna. Snjórinn innan lykkjunnar virðist færast með, þótt í raun séu þetta bara random hreyfingar. Rökrétt að ætla að t.d. blettir blettatígurs færist með honum.

Leiðsagnarreglur í hreyfiskynjun
Best guesses um hvernig áreiti hreyfast.

Leiðsagnarreglan um að hreyfing haldi áfram í sömu átt
Ef vafi leikur á því í hvora átt, t.d réttsælis eða rangsælis, áreiti hreyfist er gert ráð fyrir því að áreiti haldi áfram að hreyfast í þá átt og það gerði fyrst.

Dæmi: + og x, þá 50/50 um hvort manni finnst þetta vera réttsælis eða ransælis. Ef öðrum krossi sem er örlítið hallað er bætt fyrir framan þá leikur ekki vafi á að frá þeim tímapunkti að rétta krossinum hreyfist áreitið réttsælis. Þegar kemur að ambiguous x-inu túlkar maður það sem hreyfingu réttsælis, þ.e. í sömu átt og áður.

Leiðsagnarreglan um að ef eitthvað hreyfist þannig það skyggi á eitthvað annað þá haldi það sem það skyggir á áfram að vera til

Dæmi: Fólk sá þríhyrning og kassa á einum stað, það hvarf og svo birtist kassi á öðrum stað:

/\ ---
/_\ I I
---
svo
---
I I
---

Þríhyrningurinn virtist ekki hverfa og birtast á víxt á meðan kassinn hreyfðist til og frá, né virtust þríhyrningurinn og kassinn renna saman í annan kassa, heldur virtist þríhyrningurinn fara undir kassann.

Annað svipað dæmi:

O O
svo
O

Fyrst virtust bæði fyrri O-in sameinast í seinna O-inu.

Þegar kassa var bætt við virtist efra O-ið færast til hægri en neðra O-ið færast undir kassann.

O O
svo
O #

Top-down processing fyrir hreyfingu

Dæmi um það er lífhreyfing. Ef maður veit hvað hreyfist gefur það hreyfingunni merkingu, og hún virðist ekki eins random, sbr. andlitin sem hreyfðust.

Shortest-path constraint
Er enn eitt dæmi um leiðsagnarreglu og gerir ráð fyrir að ef eitthvað er óljóst með túlkun eigi að túlka hreyfingu á þann hátt að hún fari alltaf yfir stysta mögulega vegalengd (shortest path).

Top-down processing getur vegið upp á móti þessu. Dæmi um það er mynd af konu sem kreppir hnefa fyrir aftan haus og svo aftur mynd þar sem hún kreppir hnefa fyrir framan haus. Við mjög stutt SOA (stimulus onset asyncrony) virðist höndin fara í gegnum hausinn, í samræmi við shortest path constraint. En ef lengri tími líður á milli myndbirtinga fer maður að sjá eins og höndin fari kringum hausinn (því maður veit að ekki er hægt að fara í gegnum líkamsparta). Áhugavert að þetta gerist ekki ef það sem farið er í gegnum er ólífrænt, eins og spýta! Verður einnig bæði virkni í parietal cortex í dorsal stream (hreyfisvæði) en líka í motor svæðum, eins og maður sé að bera saman hvað konan sé að gera og hvað maður geti sjálfur gert.

Áhrif reynslu og náms á hreyfiskynjun
Ef kettlingar eru aldir upp í umhverfi þar sem eina lýsingin er “diskóljós” (stóbóskópískt ljós) þá geta þeir ekki greint í hvaða átt eitthvað hreyfist þegar þeir koma að lokum í venjulegt umhverfi. Mjög fáar áttanæmar frumur í cortex. Samræmist skynjun fólks með movement agnosia.

Hreyfiskynjun með snertiskyni
Mjög lík því í sjónskynjun. T.d. kemur fram apparent movement þegar einn staður er áreittur og stuttu síðar annar við hliðina. Punkturinn virðist stökkva til. Kemur líka fram virkni í MT við þetta eins og í sjónskynjun. Tími á milli áreitinga hefur sömu áhrif og í sjónskynjun og frumurnar skjóta svipað.

Mér er ekki viðbjargandi

Var að fá endanlega staðfestingu á að ég sé orðin bloggóð, því mig dreymdi bloggiðmitt í nótt...

Geri ekki ráð fyrir að margir leggi í þetta...

Þetta eru aðallega glósur fyrir mig, en kannski vill samt einhver kíkja á einhvern hluta af þessu, maður veit aldrei.

- - - - - - - - -

Tölvukenningar um skynjun, gervigreind:

Heilanum alltaf verið líkt við vélar, t.d. símkerfi, reiknivélar og tölvur.

Kenning Marrs um hlutaskynjun:

Bjó til tölvuforrit sem getur skynjað þrívíða hluti. Mataði tölvuna á Gestalt-sálfræðireglum um perceptual grouping. Kerfið reiknar svo út hvernig hluturinn er (eins og heilinn?).

Fjögur stig í kerfi Marrs:

Gránumynd:
Engin úrvinnsla enn, samsvarar þeirri mynd sem fellur á sjónu og er í raun ekkert annað en ljósir og dökkir deplar (í tölvukerfinu, í lit á sjónu). “Pixels”.

Frumskissa:
Unnin úr gránumyndinni. Birtuskila- og útlínugreining sem byggist á rannsóknum á móttökusvæðum frumna í hnoðfrumum og hliðlægu hnélíki. Gránumyndinni “rennt” í gegnum síu sem vinnur á svipaðan hátt og slíkar frumur. Gæti einnig svipað til þess hvernig einfaldar frumur í V1 vinna. Tölvan finnur reyndar yfirleitt of mikið af útlínum, því verður að fara fram sneiðing , þ.e. myndin er aðgreind í fleti á grundvelli Gestalt-lögmála , eins og law of similarity, law of good continuation og law of closure. Dregur fram meginþætti myndarinnar. Notfærði sér, auk Gestaltlögmálanna, ýmislegt sem vitað er um umhverfið, t.d. að snöggar birtubreytingar verða frekar við hlutaskil (reflectance edges) en hægar vegna skugga (illumination edges).

Tveggja og hálfrar víddar mynd:
Unnin úr frumskissu. Sýnir halla og lögun yfirborða. Tengir línur saman til að úr myndist heillegir hlutir. Sýnir afstæða fjarlægð, þ.e. hvar hlutir eru miðað við aðra.

Þrívídd:
Fullskynjaður hlutur. Lögun hlutar óháð sjónarhorni. Marr taldi að sjónkerfið felldi ákveðin frumform að tveggja og hálfrar víddar myndinni (eins og er gert í sumum þrívíddarteikniforritum).

Gallar: Gerir bara ráð fyrir bottom-up en ekki top-down processing.

Þáttagreiningarkenning Treismans (Feature Integration Theory):

Er lík kenningu Marrs að því leyti að gert er ráð fyrir að maður greini sjónáreiti niður og setji svo saman aftur í heila hluti, og gerir einnig ráð fyrir mörgum stigum greiningar.

Preattentive stage (forathugunarstig):
Frumþættir poppa fram, án athygli. Dæmi: Litur, halli, hreyfing, beygja (curvature), línuendar.

Fann frumþætti meðal annars með pop-put boundary aðferðinni, sbr:

/ / / / / / / / / / / / /
/ / / / \ \ \ \ \ / / / /
/ / / / \ \ \ \ \ / / / /
/ / / / / / / / / / / / /

Skilin á milli spretta fram

Notaði einnig sjónleitarverkefni:

Þættir stökkva fram. Auðveldara að finna að þáttur sé til staðar en að hann sé ekki til staðar. Gerist á forathugunarstigi, þarfnast ekki athygli.

Sbr. Finnið Q (auðvelt, samhliðaleit)

O O O O O O O O
O O O O O O O O
O O Q O O O O O
O O O O O O O O
O O O O O O O O

Finnið O (erfiðara, raðleit)

Q Q Q Q Q Q Q Q
Q Q Q Q Q Q Q Q
Q Q Q Q Q Q Q Q
Q Q Q Q Q Q O Q
Q Q Q Q Q Q Q Q

Árni:

Sjónminni kemur við sögu í sjónleit. Raðleit er ekki handahófskennd, sjónkerfið veit hvar það hefur leitað og "merkir við þá staði". Sbr. Finna L innan um T (sömu þættir, þ.e. láréttar og lóðréttar línur). L-ið færist úr stað 10 sinnum á sekúndu. Ef leitin er handahófskennd ætti það ekki að koma að sök, en fólk átti í miklum vandræðum ef þetta var svona, hægari svörun.

Illusory conjunctions :
Kemur stundum fram sýndarsamband á milli frumþátta, bindum þá vitlaust saman. Sýnir að fyrst eru þættirnir til í sitt hvoru lagi, eru ekki enn tengdir ákveðnum hlut. Það sem styður þetta enn frekar er að mismunandi undirkerfi (modules) eru í heilanum sem sjá um að vinna út t.d. lit og hreyfingu.

Focused attenton stage (“athyglisstig”):
Þættir sem eru á sama stað settir saman í hluti. Notum til þess athygli. Á forathugunarstiginu eru þættir aftur á móti ekki tengdir við ákveðna staðsetningu, fólki getur t.d. réttilega sagst hafa séð ákveðinn frumþátt, en ekki vitað hvar hann var. Þetta kemur heim og saman við það að í heilanum eru tveir upplýsingastraumar, Hvað-straumurinn og Hvar/Hvernig straumurinn. Samkvæmt Treisman sameinar athyglin upplýsingar úr þessum tveimur straumum. Formgerð hlutar er að lokum borin saman við minni til að bera kennsl á hann.

Biederman: Recognition-by-Components
Áframhaldandi þróun á kenningum Marrs. “Frumþættir Biedermans eru 36 Geónur, þrívíddarform sem hlutir eru felldir að. Geónur eru þannig að það skiptir ekki máli hvernig hluturinn snýr, það er nær alltaf, nema í afar sérstökum aðstæðum, hægt er að greina geónur hans ( view invariance). Þarf líka afar takmarkaðar upplýsingar ( restistance to visual noise), hluturinn getur því verið hálffalinn á bak við aðra hluti en samt er hægt að greina hver hann er. Geónur eru líka þannig að þær eru það ólíkar hver annarri að auðvelt er að vita hvaða geóna á við ( discriminability ). Sem sagt: Ef nógu miklar upplýsingar eru til að greina eitthvað í geón, þá er hægt að greina sjálfan hlutinn.

Gallar við kenningu Biedermans:
Hvernig getum við greint í sundur hluti sem búnir eru til úr sömu geónum? Við getum greint mun meiri smáatriði en sem samsvarar geónum. Gerir líka ráð fyrir að jafnauðvelt sé að þekkja hluti frá öllum sjónarhornum, sem ekki er rétt (t.d. reiðhjól séð að ofan).

Gott við kenningu Biedermans
Það er í raun auðveldara að þekkja hluti ef maður sér nógu mikið af þeim til að skipta þeim niður í geónur.

Þrívídd, hvar í heilanum?
Þrívíddarform sem “ganga upp” vekja virkni í IT en ekki ef þau eru impossible. Impossible hlutir vekja aftur á móti virkni í dreka, sem svarar við nýjum og óvæntum áreitum.

Gestalt-lögmálin um preceptual grouping
Frumur í V1 svara við línu, ef hún skynjast sem hluti af hóp. Hópast eftir good continuation og simarity (halla). Fruman svarar ekki ef línan stendur ekki út á þennan hátt (salience), heldur virðist einungis vera ein af mörgum randomly arranged línum.

Af hverju eiga tölvur erfitt með sjónskynjun?
-Sama mynd á sjónu getur orðið til vegna ýmissa áreita, t.d. lítið ljós nálægt og stórt ljós langt í burtu.
-Það er erfitt að vita hvort breytingar á birtu séu vegna þess að einn hlutur endar og annar byrjar, eða einungis vegna skugga.
-Það er erfitt að vita hvernig hlutir sem aðrir hlutir eru fyrir framan, og því að hluta til faldir, eru í laginu.
-Tölvur hafa ekki þann gríðarlega þekkingargrunn sem fólk notfærir sér í top-down processing til að bera kennsl á hluti.

Reglur sem skynkerfið gæti stuðst við, ýmis top-down processing

Occlusion heuristic:
Ef lítll hlutur hylur að hluta stærri hlut er litið svo á að stærri hluturinn haldi áfram fyrir aftan minni hlutinn (sbr. B-myndin í bókinni).

Light-from-above heuristic
Undir venjulegum kringumstæðum kemur ljós að ofan og maður túlkar dýpt í samræmi við það (sbr. hringirnir sem sumir virtust fara inn og sumir út).

Ef manni er sýnd sena (t.d. eldhús) og síðan er stuttlega flassað mynd af ákveðnum hlut á maður auðveldara með að bera kennsl á hann ef hann passar inn í senuna (brauðkassi) en ef hann gerir það ekki (póstkassi).

Illusory conjunctions koma síður ef maður veit við hvaða áreitum á að búast, getur túlkað þau (sbr. appelsínugulur þríhyrningur verður gulrót og svartur hringur dekk).

Co-occurrence hypothesis (kenningin um “sambirtingu”
Ef áreiti hafa oft birst saman, grúppast þau í “skynheild”. Flest fólk hefur meiri reynslu af því að sjá bókstafi en tölustafi saman í runu (eins og þessari). Þess vegna á fólk auðveldara að finna ákveðna bókstafi innan um tölustafi en innan um aðra bókstafi (Alpha-numeric category effect eða “bókstafa- og tölustafaflokkaáhrif”) . Áhrifin koma ekki jafn sterft fram hjá kanadískum pósthúsmönnum, sem hafa mikla reynslu af póstnúmerum sem eru samsett úr bæði tölu- og bókstöfum!

Andlitsskynjun

Meðfætt eða lært? Sbr. greebles-sérfræðingar og aparnir sem horfðu á flókin þrívíddaráreiti frá einu sjónarhorni.

Capgrass-heilkennið
Kemur fram við sumar geðraskanir og við ákveðnar heilaskaddanir. Andlit fólks vekja ekki upp tilfinningar, en geta samt greint andlitin.

Andlitsókynni (prosopagnosia)
Geta ekki greint andlit, en sýna samt, ólíkt Capgrassfólki, tilfinningaviðbrögð við andlitum (mælt t.d. með rafleiðni húðar og hjartslætti). Skemmt yfirleitt í Fusiform Face Area (í eða nálægt IT).

1.5.04

Fegrunaraðgerðir

Af hverju þykir hallærislegt þegar fólk fer í brjóstastækkun eða lætur laga á sér nefið, þegar öllum finnst alveg sjálfsagt að fara í tannréttingar?