21.6.04

Ferðin hingað til

Halló allir.

Í dag er síðasti dagurinn okkar hjá Ragga og Ingibjörgu. Ferðin hingað til hefur verið alveg frábær, og veðrið hefur verið gott, þvert á allar spár. Í dag er að vísu dálítið skýjað, og það rigndi eins og hellt væri úr fötu áðan, en við sitjum bara hér í hlýjunni að lesa og hafa það gott.

Ferðin byrjaði klukkan fimm á þjóðhátíðardag Íslendinga, þegar við vöknuðum og tókum okkur til. Við ákváðum að keyra á okkar eigin bíl á flugvöllin en skilja hann svo eftir fyrir pabba svo hann gæti keyrt bílinn heim (pabbi kom frá Portúgal sama dag, eflaust brúnn og sællegur). Við tók seinkun á flugi vegna vélarbilunar (mér varð um og ó), og slíkar seinkanir áttu eftir að verða einkennandi fyrir þennan fyrsta dag.

Við lentum á Stansted í London um klukkan hálftólf að staðartíma. Við áttum ekki flug fyrr en klukkan 19:15, svo við tók löööng bið, sem við reyndum að stytta með búðarrápi og glápi á fótbolta (England spilaði, svo það var ágætis stuð í fólki). Þegar tími fyrir flug tók að nálgast fórum við með einhvers konar lest að flughliðinu. Aftur varð seinkun á flugi, en nú í nær klukkutíma, allt vegnaþess að tveir hjólastólagaurar frá Malasíu sátu fastir inni í flugvélinni!

Við komumstþó loksins af stað, og flugum til Amsterdam á methraða. Í myrkrinu virtist borgin vera stór og óhugnanleg. Við drifum okkur að kaupa lestarmiða til Duivendrechht og þaðan til Utrecht,þar sem Raggi og Ingibjörg eiga heima. Að sjálfsögðu seinkaði lestinni til Duivendrecht, svo við misstum næstum af þeirri seinni. Á lestarstöðinni í Duivendrecht tóku Raggi og Ingibjörg á móti okkur, klukkan rétt rúmlega tólf! Þetta var búið að vera langt ferðalag, sem við enduðum þennan dag meðð rauðvíni og bjór í góðra vina hópi.

Næsta dag, á föstudaginn, skoðuðum við svæðið í góðu veðri. Um kvöldið fórum við á mjög flottan indverskan veitingastað, og verðið var ótrúlegt. 80 evrur fyrir mat handa fjórum og tvær rauðvínsflöskur! Eftir mat fórum við beint á pöbbarölt, og héldum að sjálfsögðu áfram að drekka... Komum að vísu aðeins við á ansi skemmtilegum útitónleikum. Á einum pöbbnum hittum við ansi skemmtilega Hollendinga sem við kjöftuðum heilmikið við, aðallega um Ísland, Björk og Sigur Rós ;-) Ég held að ég sé loksins búin að ná framburðinum á nafni eins gaursins sem heitir Thijsh (sagt Tæch, held ég). Þeir drógu okkur svo á annan pöbb, einhvern belgískan sem selur 250 tegundir af belgískum bjór! Ég fékk mér náttúrulega fullt af honum og var orðin rúllandi í endann. Fór að tefla við Ingibjörgu, og ég veit eiginlega ekki einu sinni hvor vann!

Laugardagurinn var ótrúlega þynnkulaus, svo við Björn og Ingibjörg fórum í búðir þynnkan hafði greinilega öll farið til Ragga). Ég keypti mér jakka og bol í H&M, reyndar með smá veseni þar sem þeir gátu ekki tekið kortið mitt. Ingibjörg og ég skottuðumst svo í matvöruverslun og keyptum alls konar gúmmulaði til að hafa í matinn um kvöldið. Pælingin var svo að fara í bæinn, en allir voru svo eftir sig vegna gærkvöldsins að kvöldinu var eytt heima í rólegheitum.

Á sunnudeginum skoðuðum við Björn ansi áhugavert spiladósasafn. Þar sáum við allt frá spilandi stólum til risastórra dansiballsspiladósa sem þöktu heilan vegg! Aðalnúmerið í safninu var samt stelpa, um fjögurra ára gömul, sem var svo mikið að fíla sig að hún dansaði ballett og hoppaði um við hvert lagið á fætur öðru. Um kvöldið var aftur farið út að borða. Við enduðum á tapasréttastað, eftir miklar vangaveltur um hvort við ættum að fara á afrískan veitingastað og fá okkur antilópur og krókódíla (blechhhh). Tapasréttirnir voru prýðilegir. Löbbuðum svo í bíó og sáum 50 First Dates, sem er alveg ágæt.

Og nú er ég komin að deginum í dag, mánudegi. Á eftir ætlum við að labba aðeins um í mollinu á lestarstöðinni og taka svo lestina til Amsterdam. Meira um það síðar...