29.9.04

Ætla þeir að handtaka hálfa þjóðina?

Hald lagt á tölvur og gögn í tólf húsleitum
Ríkislögreglustjórinn lagði, í samstarfi við lögregluembætti um allt land, í gær hald á tölvur og gögn hjá tólf einstaklingum í jafnmörgum húsleitum vegna gruns um að þeir sæktu og dreifðu ólöglega til annarra efni, t.d. kvikmyndum, tónlist og tölvuforritum, í gegnum Netið. Nokkrir voru handteknir vegna málsins í gær. Upphaf málsins er kærur frá umboðsmönnum rétthafa tónlistar, kvikmynda og tölvuforrita sem og Samtökum myndbandaleigna sem beint var til embættis efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Húsleitirnar voru gerðar í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Árnessýslu og á Ísafirði.

Tengjast aðgerðirnar rannsókn á hópi manna sem grunaðir eru um að hafa komist yfir kvikmyndir, tónlist, tölvuforrit og sjónvarpsþætti á Netinu og vistað efnið hjá sér með ólögmætum hætti og dreift því til annarra. Um er að ræða brot gegn þriðju grein höfundarréttarlaga, að sögn Jóns H.B. Snorrasonar, yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Jón segir lög um dreifingu á kvikmyndum og sambærilegu efni mjög skýr. „Hugverk eru lögvarin og þetta eru slík réttindi sem þarna er um að ræða. Eigandi og höfundur er rétthafi að tónlist og þau réttindi eru lögvarin. Þannig að þetta er ekki vafa undirorpið.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má gera ráð fyrir að þúsundir Íslendinga sæki kvikmyndir, tónlist og annað efni í gegnum Netið og dreifi því til annarra. Jón segist ekki geta sagt til um hvað rannsóknin muni ná til margra.

Rannsókn ríkislögreglustjóra lýtur að tólf aðilum sem taldir eru „höfuðpaurar“ í hópi þeirra sem dreifa og sækja efni í gegnum Netið með skipulegum hætti, að sögn Jóns. „Það er eðlilegt að byrja þar. Hvar [rannsóknin] endar er auðvitað ennþá óljóst. Þessi samskipti eru rekjanleg og verða rakin og sönnunargagna aflað með þeim hætti. Þetta er alls ekki óframkvæmanleg réttarvarsla sem við stöndum í.“

Aðgerðirnar í gær eru aðeins upphafið að sögn Jóns. Undirbúningur rannsóknarinnar hefur staðið í nokkra mánuði.

Rúmlega þrjátíu manns komu að aðgerðum ríkislögreglustjóra í gær.