Hamingja vs. frægð og frami?
Ég er eitthvað svo áttavillt eitthvað núna. Mér finnst hvíla á mér einhver kvöð um að velja framhaldsnám og ég get bara hreinlega ekki ákveðið mig. Það er mikil pressa frá kennurum og vinum mínum í sálfræði, og já kannski frá mér sjálfri að einhverju leyti, um að ég fari til Bandaríkjanna.
Mig langar bara alls ekki... Mér finnst það einhvern veginn mjög fráhrindandi, ófjölskylduvænt, erfitt fyrir Björn að komast inn í landið ef hann ætlar ekki í nám strax, langt og strangt og ósveigjanlegt. OK, það eru bestu skólarnir þar. Ég veit bara ekki hvort það myndi veita mér neina gleði að útskrifast úr einhverjum Big Shot skóla eftir 5 ára nám í einhverju svaka rannsóknarnámi sem ég hefði ekkert með að gera hér á litla Íslandi nema kúra í einhverri lítilli skrifstofuholu niðri í dýflissu Odda.
Væri ég ef til vill betur komin í gömlu góðu Svíþjóð í einhverjum ekki alveg eins frábærum skóla en alveg ágætum samt, í mjög fjölskylduvænu samfélagi sem ég þekki vel (ég bjó í Lundi), þar sem ég veit að mér getur liðið vel og er ekki eins óralangt að heiman. Ég mun að öllum líkindum ekki verða svaka frægur vísindamaður. En hvað með það? Er það þess virði? Hvenær ætlar maður að fara að hætta að hugsa um að hafa það svo svakalega gott í framtíðinni og fara að hafa það gott í nútíðinni?
<< Home